Gómsætur hafragrautur að hætti Stínu ömmu

Nína Halldórsdóttir

Nína Halldórsdóttir

· 5 min read
Thumbnail

Hafragrautur finnst mér alveg óskaplega góður. Auk þess er hann líka hollur og næringarríkur og einfaldur og fljótlegur í matreiðslu. Þegar ég var barn bjó ég eitt sumar hjá Bjössa afa og Stínu ömmu á Þórisstöðum í Melasveit en þaðan er öll mín fjölskylda ættuð þó við séum flest flutt til höfuðborgarinnar. Þar lærði ég að gera þennan ljúffenga hafragraut sem ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni að.

Ég man ennþá eftir því þegar Stína amma gerði þennan graut fyrir mig fyrst. Ég var ekki nema nýorðin 9 ára og hafði aldrei gist einhvers staðar án þess að hafa pabba nálægt en mömmu minni hafði ég aldrei kynnst. Auk þess hafði ég aldrei hitt Bjössa afa og Stínu ömmu áður svo ég var svolítið lítil í mér þegar ég var skilin eftir í heimkeyrslunni við Þórisstaði, þar sem ég átti að eyða sumrinu. En þau tóku einstaklega vel á móti mér með heimasteiktum kleinum og nýkreistri mjólk (uppskrift væntanleg á bloggið!). Bjössi afi tók þéttingsfast í höndina mína og þrumaði “Nú ert þú stúlka, en þú munt fara heim sem kona!” sem átti heldur betur eftir að rætast. Amma Stína knúsaði mig og hvíslaði að mér “Þú mátt ekki fara niður í kjallara.”

Fyrsta nóttin var svolítið erfið enda aldrei sofið án pabba og svo var líka eitthvað skrítið hljóð, svona eins og einhver væri að krafsa í trégólfið fyrir neðan mig og um morguninn heyrði ég frekari læti og gott ef ég heyrði ekki einhvern emja “Hún er öll búin! Ég get ekki meira!”. En það gæti bara hafa verið vindurinn. Þegar ég kom fram í eldhús var Stína amma búin að elda handa mér hafragraut með rúsínum, kanil og vel af mjólk út á. Um leið og ég smakkaði hann gleymdi ég öllum krafshljóðunum og vindgauði. Vá hvað hann var góður! Þó ég væri ekki nema 9 ára grátbað ég Stínu ömmu um að kenna mér að elda svona góðan graut en hún svaraði með vísu:

Grautinn munt þú eigi gera
fyrst ganga skalt með barn og bera
Því velling vantar leyndan neista
úr vörtu þarf þann eld að kreista

Ég skildi ekki vísuna svo að morguninn eftir bað ég ömmu aftur um að kenna mér að elda grautinn en aftur svaraði hún með sömu vísunni. Svona gekk fyrri hluti sumarsins. Bjössi afi kenndi mér að keyra dráttarvél en aldrei vildi Stína amma kenna mér að elda grautinn. Svo að einn morguninn laumaðist ég eldsnemma í eldhúsið til að fylgjast með henni útbúa grautinn. Ég sá hana þá koma upp stigann úr kjallaranum með flösku af mjólk sem hún notaði svo til að sjóða hafrana upp úr ásamt vatni í hlutföllunum 1 bolli haframjöl á móti 1 bolla af vatni og hálfum bolla af mjólk. Þetta sauð hún í 3 mínútur sléttar, saltaði þá og hrærði rúsínunum út í. Grauturinn var borinn fram í skál, kanil stráð yfir og restinni af mjólkinni úr flöskunni hellt út á.

Þá um kvöldið gerði ég mína fyrstu tilraun til að útbúa grautinn góða á meðan Bjössi afi hlustaði á kvöldsöguna í útvarpinu og Stína amma fór á kvenfélagsfund. Ég tók til mjólk úr kæliskápnum og gerði allt nákvæmlega eins og Stína amma hafði gert fyrr um daginn en ekki var grauturinn eins góður og um morguninn eða nokkurn morgunn síðan ég kom í sveitina. Ég leiddi hugann að vísunni hennar Stínu ömmu. Velling vantar leyndan neista. Það vantaði eitthvað leynihráefni. En ég var viss um að ég hefði gert allt eins og amma. Mér varð þá hugsað til mjólkurflöskunnar sem Stína amma kom með upp úr kjallaranum. Hafði hún ekki virst gulari en mjólkin í ísskápnum? Ég þurfti að komast til botns í þessu.

Ég læddist niður kjallaratröppurnar og sá að Stína amma hafði gleymt að læsa dyrunum svo ég gægðist inn. Ég fann ljósrofann og hugðist kveikja ljósin en ekkert gerðist. Svo heyrði ég kvenrödd kalla á mig úr myrkrinu “Nína! Nína mín! Elsku Nína mín, ert þetta þú? Þú verður að hjálpa mér! Þú verður að hjálpa mömmu þinni! Þessi kona er ekki amma þín!” Ég hafði ekki tekið eftir Stínu ömmu koma niður tröppurnar en skyndilega kippti hún mér út úr kjallaranum og lokaði og læsti dyrunum. “Var ég ekki búin að segja þér að þú mættir ekki fara niður í kjallara?” sagði hún í hvössum tón og rak mig upp tröppurnar. En hún var of sein. Ég hafði uppgötvað leyndarmál Stínu ömmu. Svo að hér er loks uppskriftin með leynihráefninu:

Gómsætur hafragrautur að hætti Stínu ömmu

1 bolli haframjöl
1 bolli vatn
½ bolli nýkreist brjóstamjólk
½ tsk salt, eða eftir smekk
handfylli af rúsínum
kanill
Nóg af brjóstamjólk til að bera fram með

Aðferð:
Hrærið saman haframjöl, vatn og brjóstamjólk og hitið að suðu. Látið sjóða í þrjár mínútur sléttar. Saltið og bætið við rúsínum og látið sjóða í hálfa mínútu í viðbót. Berið fram með kanil og brjóstamjólk.

Ath.
Ef þú átt ekki brjóstamjólk er í lagi að nota nýmjólk.





Nína Halldórsdóttir

About Nína Halldórsdóttir

Nína Halldórsdóttir er matarbloggari hér á Ekkert að frétta. Nína er útskrifuð úr Hússtjórnarskólanum og þekkir hvern krók og kima íslenskrar matargerðar.

Copyright © 2026 Ekkert að frétta. All rights reserved.
Made by Web3Templates· Github